top of page

Lambaskarð

Þetta er heldur drýgri leið en Víkurheiðin 3 og ½ tími, og erfiðari en Heiðin enda til muna hærri. Leiðin á sama upphaf, og eða enda, og leiðin um Heiðina en í stað þess að fara út hjallann frá Víkurgerði er farið inn Fleinsdalinn upp með Víkurgerðisánni sem er gull falleg, nánar tiltekið glópagulls, því það finnst í henni neðan til. Sé fólk ekki grjótglópar fer betur á að fara upp utan árinnar, þetta er líka leiðin á Sandfellið. En við fylgjum ánni þeirri innri uns við komum að all nokkrum fossi á annan tug metra á hæð, þá yfirgefum við gilið og höldum á fjallið og út hlíðar Sauðabólstinds í stefnu á skarðið.

Brekkan upp úr dalbotninum í skarðið er nokkuð brött en leggi fólk ekki í hana má alltaf flandra um dalinn og til sama lands.

(64° 51' 56,3'' Nb. og 13° 51' 29,3'' Vl. efri endi á grasbrekku hér vel fært niður úr botni.) Útfyrir þennan punkt, þ.e. utar með dalnum er ekki rétt að fara til uppgöngu nema fólk langi í klifur.

Úr skarðinu (64°51’ 45,04’’ Nb  og 13° 51’ 12,29“ Vl Lambaskarð 600m) og niður í þorp á Stöðvarfirði eru allir vegir færir. Hægt er að fara niður hvurn af Skarðshryggjunum sem er, en svo nefnast hryggirnir sem leiða til skarðsins og upp í hlíðina á Sauðabólstindinum. Hér vel ég innsta hrygginn og geri ráð fyrir að fari fólk "hina leiðina" leggi það upp frá Hól og haldi upp slóðina sem liggur um Gunnustöðulinn þar sem nú er raflínuendi. Upp melinn, einn Lúsamelanna höldum við (117m hæð, 64°50’25,23“N; 13°52’22,44“V.  Efsti Lúsamelur 161m) beint í stefnu á skarðið og getum haldið þeirri stefnu nánast inní skarð, næsti áfangi er hins vegar Smalaþúfa (Smalaþúfa 64° 50' 47,42" N; 13° 51' 57,22"V hæð 259m) En hana ber hér hæst þegar komið er upp á Lúsamelana og á henni smá vörðubrotsómynd. Frá henni höldum við beint í átt að fjallinu framalega í mýrarsundinu sem við komum hér að ofan við Smalaþúfuna en hér eru stiklusteinar í fjárgötunni og því óþarfi að vökna á sandölum. Þegar mýrarsundinu sleppir er haldið í stefnu á skarðið eða fyrir vélvædda að steini á ( 64°50'59,53" N; 13°51'47,2" V. Steinn neðan við Attnefubotn 315m) Við þennan stein er gott að teygja á kálfum og lærum og leggja svo í hrygginn halda hann beint upp í (64°51'03,32" N og 13°51'49,5" V Attnefubotn 374m)

Attneu- Attnefu- Attnefðu-botn heitinn eftir sjálfdauðri á "arnhöfðóttri" er svo umhugsunar efni staðarins. Héðan úr botninum er svo stefnt beint inn hlíðina inn í skarð. Ætli fólk hins vegar á Sauðabólstindinn er héðan og beint á brekkuna styst að fara.

Síðan virkar illa í símum og spjaldtölvum

bottom of page