top of page

Gráfell

Leiðin inn í Gráfell er einstök hér um slóðir. Fylgt er línuslóðinni upp frá Grundinni hjá Hátegi og inn að Ljósumelum. Þarna förum við upp í melana stefnum sem sagt inn og örlítið upp þar til við komum í lækinn innan við, þessum læk fylgjum við þar til við höfum skoðað græna líparítið og biksteininn sem líka er grænn, þá fikrum við okkur yfir melinn og förum að horfa ofan í Tröllagilið en upp með því förum við þar til við erum komin yfir bergganginn sem að mestu er úr frekar mjóum steinum. Nú höldum við ekki lengra en hentar til að koma sér niður og yfir gilið rétt fyrir ofan fossinn. Við förum eins og ærnar eina slóð fram með berggangi sem er þarna innan við farveginn, það er hins vegar stundum hált á slíi í og við lækinn þó alla jafnan sé jú gott að fóta sig á líparítinu.

            Nú tekur við nokkuð brattur melur upp í rúma 500m en ofan við Djúpabotn, sem hér er innan við okkur, er hjalli með einstaklega haganlegum bakka til setu og steini til sömu nota í viðlögum, rigningu. Hér er lækur sem er síðasta vatn þar til komið er úr fellinu ef frá eru taldir fáeinir dropar sem stundum falla úr berginu eftir að komið er inn í fellið. Það er því rétt að tanka, eða þannig sko. Við fylgjum læknum upp á hrygginn sem hér er ofan við og tökum stefnuna rétt fyrir ofan klettinn sem blasir við á brúninni. Þegar þangað er komið blasir Gráfellið við og Einbúarnir niðri á grundunum. Með því að fara hér örlítið innar má velja sér gróna urð til að halda upp í Eyrareggjarnar en upp á þær þarf að komast svo leiðin verði greið inn í fell.

            Spottar eru á leiðinni, fyrst upp um gjót þar sem farið er bakvið eða undir stórum steini, síðan inni í rák á leið upp hana, bæði vegna þess, og eins hins að grjótið er sárt viðkomu, er gott að hafa vettlinga. Skór þurfa líka að vera nokkuð sæmilegir.

            Þegar haldið er af toppnum er gott að þræða sig inn um bergganginn inn af hryggnum og halda síðan innarlega í urðina og niður að Einbúa (Einbúum) Hér er svo hægt að áætla hvað eftirlifir dags og kröftum og halda yfir að Steinboga og þaðan út í Greni og þá niður að Þverá.

 

(Hrafn  Baldursson (munleg heimild))

Síðan virkar illa í símum og spjaldtölvum

bottom of page