top of page

Loftmynd

Brúnir

Ákaflega létt leið, um tveggja stunda gangur á þurrlendi og hvergi bratt né klungur.

Laust innan við byggðina í Hafnarnesi er Garðsáin og gott er að fylgja henni að upptökum, úr tjörninni Hádegisvatni. Það er betra að vera austan megin tjarnarinnar. og þar sem hún á nú affall orðið til austurs erum við komin á Gvendarnesbrúnirnar. Hér höldum við sem leið liggur til suðurs eftir brúnunum og vert að geta þess að kortið er mjög ónákvæmt þegar kemur suður fyrir hornið, enda óvíst að landið sé í dag eins og það var í gær, ef það hefur rignt hressilega.

En fyrir vélvædda förum við að stöpum nokkrum á N 64°51'00,14“N; 13°47'37,12''V -.

Þegar farnir hafa verið um 100m frá læknum erum við komin að "landi í mótun" hér skríður það fram á stað sem heitir Ólukka og er allrar athygli verður. Við stefnum inn yfir hana á stein á mel utan efri Hálsdals sem á staðinn (314m hæð, 64°50´54,54“N 13°48’01,16“V)

Inn um Ólukkuna er hægt að velja sér leið eftir smekk, skóbúnaði og tilgangi, að ekki sé talað um veðri. Þeir sem hafa löngun til að vera í svaðinu fara efstir, hinir neðar. Þið munið bara að Bláalónið okkar er allt jafn kalt, sem sagt kalt. Það er léttara að fara framan við það en ofan og upp um klungrið er betra að hafa þurra tíð, ef á að líta upp í það og þess utan heppilegra að fara þangað sunnan að. Ef Bláalónið er þarna enn, þegar þú lesandi góður og göngumaður, ferð þarna um þá var þessi pollur um 5 m djúpur haustið '99 og fölblár af leir í vatninu.

Hér innan við stungum við niður röri í mel að fylgjast með framskriði melsins og standi það enn má hafa það sem viðmið að leið yfir melinn en þetta er mjög stuttur kafli og greið leið innan við melinn

Það er betra að fara ekki of neðarlega yfir Efri-Hálsdalinn og stefna upp í átt á Hrossbeinabotninn og ekki úr vegi að líta við í Hundraðmannahelli en fyrir vélvædda er hann í 321m hæð á 64°50’37,19’’N; 13°48’39,3’’V -. Allt niðrandi tal um stærð hans verður svo ekki liðið, enda getur maður staðið uppréttur í honum.

                Héðan er tveggja góðra kosta völ að halda suður Landabrúnir niður á Sjónarhraun, en þaðan er gott að leggja upp fari maður sunnan að og austur, eða halda upp SV frá hellinum upp á Langahjallabrún koma við í Tóftinni (Tóftin í Ásnum í 318m hæð 64°50'42,3''N; 13°49'07,6''V ) og síðan hjá Blautumýrarstapa, (Hleðsla innan Blautumýrarstapa 277m  64°50'26,2"N; 13°49'40,15"V ) fara ofan Smjörhlíðina inn yfir Gráubala. Tröppur voru á Gráubölum 118m 64°50’08,42“N; 13°51’12,2“V  meðan girt var. Ef maður fer inn að ánni þarf að muna að horfa upp í Svartafoss á leiðinni yfir og niður undir Klofa og svo bara framvegis. Nú, eða niður með ánni framhjá Grundarfossi niður á Borgargarðstún.

                Frá Endurvarpsstöðinni á Sjónarhrauni er gott að leggja upp til göngu t.d. vegna þess að við húsið er gott að skilja eftir bíla. Héðan er haldið eftir brúnum Landabrúnum og þeim fylgt þar til komið er þar sem gil gengur upp gegnum leiðina þá er farið upp á Langahjalla og stefnan tekin á Hundraðmannahellinn sem er eins og áður sagði í 321m hæð á 64°50’37,19’’N; 13°48’39,3’’V -.

Síðan virkar illa í símum og spjaldtölvum

bottom of page