

Milli himinhárra fjalla
heilladísir standa vörð,
Þar í hjúpi hvítra mjalla
hvíla veit ég lítinn fjörð.
Þangað hjartans straumar streyma,
Stöðugt þangað beinist þrá,
Þar á andinn ennþá heima
eins og lífs míns vori á.
Þarna björtu bernskuárin
birtust mér í gleðidraum,
þarna felldi fyrstu tárin
fárátt barn við tímans straum.
Þarna ástúð minnar móður
mínum sorgum huggun fann.
Þarna fyrst mig faðir góður
fræddi um Guð og sannleikann.
Þá var ljúft að lifa og vaka,
- lífsins sumarmorgni á, -
yndissöngva undir taka,
undralönd í hilling sjá,
finna blíðan blæ á vanga
blómin lesa um grund og hól.
Slík var æska gæfuganga
glaðir undir himinsól.
Enn frá blómum æskudaga
ilminn leggur fyrir vit,
Ennþá finn ég fanga og draga
Forna tímans sólskinsglit.
Minninganna margt er sporið
markað djúps í Helga jörð.
Aldrei gleymist æskuvorið
yndislegt við Stöðvarfjörð.
Stöðvarfjörður eftir Björn Jónsson frá Kirkjubóli.


Stöðvarfjörður

