top of page

Friðsælasti blettur í heimi. Hann er hér. Hvorki meira né minna.

Rökstuðningurinn er einfaldur og hefst á því að Ísland sé friðsælasta land í heimi og ekki annað en finna á því blettinn sem er friðsælastur. Hér er hann! Allar götur frá landnámi þegar Þórhaddur bannaði hér dráp nema á búfé.

Já, merkilegt að einhver hafi ekki endurvakið þetta Þórhaddar nafn.

Síðan þessi heiðni lubbi kom sér hér fyrir, kannski hér í túninu í Stöð, hver veit, þá hefur eiginlega ekkert verið talað um ábúendur.

Ef leitað er í annálum finnst bara ein frétt.

Skarðsárannáll 1517  „Svo bar til á Löndum í Stöðvarfirði á Austfjörðum á Íslandi. Þar bjó sá maður, er Steingrímur hét, hans kona hét Anna; hún tók barnssótt um Mikaelsmessu, og síðan lá hún með þeirri sótt fram á föstu, og þá gróf hol á hennar kvið fyrir ofan naflann, og kom þar út handleggsbein barnsins holdlaust, og skammt þar eptir gróf þar nærri annað gat, og kom þar út hausskeljarbeinið, og voru þar úttekin öll líkamleg bein barnsins, en síðan greri konan innan lítils tíma.“

Hér grær sem sagt allt og líka gróðurinn nema þegar sendir eru garðyrkjufræðingar frá Reyðarfirði til að sulla hormónum yfir hann. Meira að segja leiðinlegu túlípanarnir sem brotna auðvita alltaf í fyrsta sunnanveðri sumarsins.

Hingað hafa heldur ekki komið neinir af öllum þeim sem stungið hafa niður penna til að hrósa eða ófræja landið, ekki einu sinni Henderson biblíusali lét sjá sig, trúlega talið að grútarbiblíunum væri betur komið annarsstaðar en hér og fékk svo prestsson (Eírík Magnússon, bókavörð í Cambridge) héðan úr Stöð til að lesa próförk að næstu útgáfu. Ein undantekning er nú þarna samt Ólafur Ólavíus kom á Stöðvarfjörð 1776 að skrifa landshagaskýrslu fyrir hans hátign Kristján 7. og það kemur ekki á óvart að hér búa menn með fé og Olli finnur geislasteina og fjörðurinn sem hann segir lítt gróinn vegna austanáttar fær 13 línur. Sem sagt, eins og allar skýrslur stjórnvalda, bull.

Stövarfjörður er einmitt gróinn og það vegna þess helst að hér gætir ekki norðanáttar, hún klofnar fyrir innan fjarðarbotninn og fer út firðina beggja vegna. Sú er líka skýringin á lítilli mengun frá gosinu í Holuhrauni og að hér skuli finnast lítið af öskulögum. Auðvita erum við svo utan skjálfta og gossvæða. Hér eru heldur ekki skriðuföll og ekki snjóflóð. Meira að segja örnefnin okkar eru friðsældin sjálf hér eru engir aftökustaðir. Við þurfum suður í Breiðdal á Hangakleif eða austur fyrir Hafnarnes á Þjófahraun til að komast á slíka.  Það telst líka algert lúxus vandamál að eiga hvassa sunnanátt fyrir versta náttúrulega óvininn.

Song to the world - Vadim Kiselev
00:00

Friðsælasti staður á  jarðríki

Hrafn Baldursson - Kristjan Vágseið

Síðan virkar illa í símum og spjaldtölvum

bottom of page