top of page

Þjóðsögur

Stöðvarfjörður

Upptök Víkur-Siggu
Rostungur á Kömbum?
Grjóthrun í Kambaskriðum

Kaflar

SÖGUR

Í þá daga var langt að sækja til kaupstaðar; var sótt til Eskifjarðar eða Djúpavogs, og voru stórir bátar notaðir til þeirra ferða. Í Stöð var einn slíkur flutningabátur, sem nefndur var “Svanur”. Eitt haust var hann sendur til Djúpavogs eftir vörum og kom aftur úr þeirri ferð að kvöldi dags. Voru menn og hestar til taks að flytja vörurnar heim í Stöð, en “Svanur” var naustaður. Varningurinn var þegar fluttur heim, en þó gleymdust nokkrir smápinklar, og var gamall maður í Stöð, Arnoddur að nafni, beðinn að sækja þá; fór hann þegar af stað, og segir ekkert af ferðum hans, en ekki kom hann heim um kvöldið. Af því að svo skammt var að Flautagerði, héldu menn, að hann hefði gengið heim þangað og mundi dvelja þar fram eftir kvöldinu, enda hafði hann oft gert það áður, þegar hann átti leið þar hjá. Var hans því ekki leitað og tóku menn á sig náðir. Um morguninn var Arnoddur enn ókominn, og var þá sent að Flautagerði til að spyrja um hann; en ekki hafði hann komið þangað. Var þá gengið ofan að bátnum, en þar var ekkert að sjá eða finna. Sneru leitarmenn þá aftur heim að Stöð, en þegar þeir komu í urð þá, sem fyrr er nefnd, fundu þeir ræfil af Arnoddi eða bein hans; lágu þau víðsvegar, og var líkast því sem holdið hefði verið rifið af þeim. Eitthvað var þar af fötum hans, rifnum, og sömuleiðis voru þar pinklar þeir, sem hann hafði verið sendur eftir. Urðin, þar sem leifar Arnodds fundust, hefir síðan verið kölluð Arnoddarurð. - Atburður þessi varð haustið 1877,…

 

Frásögn eftir handriti Einþórs Stefánssonar frá Mýrum (Tekið úr Grímu 12. hefti)

Upptök Víkur-Siggu  

       

Stúlka, sem Sigríður hét, fórst eitt sinn í Stöðvará í Stöðvarfirði. Þegar hún fannst, hafði hrafn kroppað annað augað úr henni. Hana vakti Pétur upp og sendi tveimur bræðrum, er bjuggu í Vík. Þeir vörðust henni lengi og vel. En eitt sinn, er þeir fóru frá Vík að Kolfreyjustað á báti, þá neytti hún færis, gekk inn fyrir fjörðinn og grandaði þeim við fjöruna, þegar þeir komu að landi. Bræðurnir höfðu heitið Jón og Jóhann og lent í ónáð við Pétur. (ófreskur maður var staddur þar nærri í heygarði og sá leik þennan. Hann mælti við dreng, sem var hjá honum: „Sjáðu Víkur-Siggu núna!"  Upp frá þessu fylgdi þessi kvendraugur ætt þeirra bræðra; var talinn vel fjörug ættarfylgja.

 

                Einar Bragi segir um Pétur að hann hafi ýmist verið kallaður Svínaskála-Pétur eða Galdra-Pétur. Sigurðsson var hann og bjó á Svínaskála á fyrri hluta 18. aldar sonur Sigurðar lögréttumanns í Ási í Hegranesi Jónssonar.

 

(Úr Eskju 1 síðu 226, Munnmæli Bjarna Sveinssonar o. fl.)

Rostungur á Kömbum?

 Öndverðan vetur árið 1855, bar svo til kvöld eitt á níunda tímanum að mig syfjar. Gísli tekur eftir því og segir:„ Það fer af þér svefninn ef þú ferð og rekur féð úr básunum og fram í Torffjöruna, Lína getur farið með þér. Ég kvaðst fús til þess og við förum. Meðan féð var ekki komið í hús var það aldrei óhult í fjörunum og básunum sunnan við bæinn, gat með háflæði tekið út, því sjórinn skall þá upp í stafn á þeim. Á ysta básnum byrjum við sem var Þuríðargjögrið, svo inn bæjarfjörurnar, í þeim voru nokkrar kindur, við rekum þær í gegnum Kambinn; í gegnum hann eru dyr eins og á stórri hlöðu, þá tekur við Króarhólsfjaran, þar bættist við hópinn, þaðan og yfir Króarhólinn renna þær í sporaslóð, að vestan við hann er örmjótt sund er skilur á milli hans og Kambahraunsins, heitir Spánskivogur niður frá sundi því. Seinasta kindin er að fara niður þrepin á Króarhólnum en þær fremstu eru komnar yfir á hraunið, ég ætla að fylgja fast á eftir seinustu kindinni, þá tekur Lína í handlegg minn, ég spyr hvað hún meini og verð litið framan í hana, sé hún er náföl, hún svarar ekki en bendir í áttina til hraunsins. Þá er eins og hún fái málið og spyr: „Sérðu ekki það sem stendur vestan við grjótgarðinn, skammt frá garðshliðinu”.

 

  Tunglið skein í fullri stærð á loftinu og óð í skýjum, föl var á jörðinni sem hjálpaði til að gera birtuna skýrari þegar frá tunglinu dró. Skammt upp frá hliðinu en vestan við grjótgarðinn sá ég standa eitthvert ferlíkan, líktist helst manni, svo þegar tunglið skein glatt, stirndi á þetta eins og hvelju á hval. Líkt mannshöfði var á skrokk þessum en ekki sá háls, má vera orsakast hafi af fjarlægðinni sem ekki verður nema óviss ágiskun mín, mætti segja hundrað fet. Handleggi hafði kvikindi þetta, var sem þeir hengju slappir niður, það sneri sér til norðurs og reri sér fram og aftur, mjög hægt. Þegar við nú höfðum horft á þetta stundarkorn vil ég fara fram á hraunið til að sjá þetta betur. Það var svo gaman að geta lýst þessu vel en Lína bað mig að gefa upp þá hugsun, sagði þessi skepna hlyti að vera komin úr sjó og gæti auðveldlega grandað okkur. Ég sem ekki fann til hræðslu átti erfitt með að láta undan, gerði það þó og við gengum beinustu leið heim til bæjar, á Króarhólsbrúninni stansaði ég til að sjá hvert óskepna þessi hefði breytt stöðu sinni, stóð hún þá upprétt en í sama stað. Væri ég að spurður hvað ég héldi um hæð hennar mundi ég hiklaust segja átta fet, styðst ágiskun mín við hæð garðsins.

 

   Nú fer ég að leggja niður í huga mínum, þegar ég sé búinn að tjá Gísla hvað fyrir okkur Línu hafi borið, fari hann tafarlaust til Sveins sem muni skjótt bregða við til að geta séð þetta ferlíkan en sú fyrirætlun mín fórst fyrir. Ekki höfðum við fyrr komið í baðstofuna en Gísli segir með þjósti miklum. „Þið hafið víst gert þetta trúlega”. Lína sem var ör í lund, svarar aungu, ég held hún hafi verið miður sín, ég svara þá í líkum tón og hann. „Ekki hefði þér farist betur hefðir þú séð það sem við sáum”. „Ég vil ekki hlusta á neinar lygasögur”, segir hann. Þá segir mamma okkar. „Hættu, Gísli ! þú ert að gera börnunum rangt til, þau eru hvorki svikul eða skreytin”. Síðar um kvöldið, þegar móðir mín fór að mjólka kýrnar, spyr hún mig hvað við Lína höfum séð, tjáði ég henni það. Hún segir: „ Ef ekki breytist veður í nótt má sjá slóð skepnu þessarar en komi hríð, þá hafið þið ekkert sem sannar sögu ykkar. Því miður breyttist veðrið, blindbylur var næsta dag. Þennan vetur gjörði harðan, lengi hagbönn, yfirleitt byljir mjög tíðir. Lá þá hafís all lengi fyrir Austfjörðum alt suður í Lónbugt.

 

(Úr handriti Guðbrandar Erlendssonar)

Grjóthrun  í  Kambaskriðum

"Á fögru kvöldi síðla sumars komum við Lína með ær og kýr sunnan úr Hvömmunum. Ærnar runnu í hala rófu út Kambaskriðurnar kýrnar lötruðu í humáttina eftir þeim. Í miðjum skriðunum er gil í því vorum við er við heyrðum drunur og dynki  í fjallinu svo undirtók í hömrunum sem gerði þá svo hræðilega. Það var því líkast sem fjallið allt væri að hrynja. Það voru spennandi augnablik. Til að bjarga lífi okkar lá beinast við að hlaupa til baka en okkur greip sama hugsun bæði að bjarga kúnum því þeim varð ekki bilt við eins og ánum sem tóku á sprett.. Með höndum og fótum tókst okkur samt að fá þær til að hlaupa því ekki var svipa við hendina. Tæpast höfðum við náð öxlinni utan við gilið er björgin ruddust niður eftir því, en smærra grjótið hentist víðsvegar, sumt af því mjög nærri okkur. Það vorum við sannfærð um að kýrnar hefðu beðið bráðan bana hefðum við látið þær sjálfráðar. Lesarinn getur nærri um gleði okkar Línu að hafa tekist að bjarga skepnunum sem okkur í það minnsta fannst við hafa gert, og svo að komast lífs af sem við á aungan hátt  reyndum að þakka okkur, heldur þeim sem öllu stjórnar til hins besta. Þetta hrun átti upptök efst í Arnartindinum sem er ysti tindur á fjallgarði þeim er skilur á milli Breiðdals og Stöðvarfjarðar„.

(Úr handriti Guðbrandar Erlendssonar)

Á Toppinn

Síðan virkar illa í símum og spjaldtölvum

bottom of page